Spring til indhold

Formennska Danmerkur 2015

06.11.2014  11:41

Samstarfsráðherrar Norðurlanda, Elisabeth Aspaker, Carsten Hansen, Eygló Harðardóttir, Kristina Persson, Lenita Toivakka, Veronica Thörnroos og Annika Olsen skrifa í Fréttablaðið 5. nóv. 2014.

Norðurlönd – saman erum við öflugri

Fjöldi norrænna þingmanna og ráðherra sótti 66. þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í síðustu viku. Á dagskrá voru málefni sem varða sameiginlega hagsmuni Norðurlanda, eins og norðurslóðir, umhverfismál, menntun og heilbrigðismál.

Sumir segja að nú, eftir áratuga samstarf, hafi norrænt samstarf runnið sitt skeið. Sagt hefur verið að það sé þungt í vöfum og skili litlu. Skiptir samstarf Norðurlanda enn þá máli árið 2014?

Okkar svar er afdráttarlaust JÁ.

Samstarf Norðurlanda er einstakt á heimsvísu. Það er einstakt að þingmenn allstaðar af Norðurlöndum komi saman, eins og nú er gert í sænska þinghúsinu, til að kryfja sameiginleg hagsmunamál til mergjar og ræða við ríkisstjórnir og forsætisráðherra landanna.

En norrænt samstarf er miklu meira en bara umræðuvettvangur. Í dag tökum við þeim mikilsverða árangri sem náðist á fyrstu árum samstarfsins sem sjálfsögðum hlut. Afnám vegabréfaskoðunar, félagsmálasamþykktin og sameiginlegur vinnumarkaður Norðurlanda eru allt norrænar lausnir sem hafa verið notaðar sem fyrirmyndir í samstarfinu innan ESB. Íbúar Norðurlanda njóta árangurs samstarfsins daglega, til dæmis með því að sækja menntun í öðru norrænu landi eða með því að leita nýrrar atvinnu í einhverju Norðurlandanna sé atvinnuástandið slæmt heima fyrir.

Norrænt samstarf lifir ekki bara á fornri frægð. Við erum enn að finna sameiginlegar lausnir sem gagnast íbúum Norðurlanda. Umhverfismerkið Svanurinn og matvælamerkingin Skráargatið hjálpa norrænum neytendum að velja vistvænar og hollar vörur. Svanurinn er um leið til marks um mikil áhrif Norðurlanda í umhverfismálum á heimsvísu. Þann áhrifamátt höfum við skapað með samstarfi. Með sama hætti höfum við í sameiningu gert samninga við meira en 40 skattaskjólsríki og þannig tryggt marga milljarða í skattatekjur, sem annars hefðu horfið í þessi skjól.

Önnur hlið á samstarfinu sem er ekki eins sýnileg en ekki síður mikilvæg er miðlun reynslu. Slík miðlun á sér stöðugt stað á margbreytilegum sviðum. Með henni má auka gæði og fá meira út úr þeirri starfsemi sem fram fer í einstökum löndum. Til dæmis liggur viðamikið norrænt samstarf um næringarfræði að baki ráðleggingum um mataræði sem stofnanir í hverju landi gefa út.

Samtakamátturinn gerir okkur öflugri. Þegar við stöndum saman getum við áorkað meiru en hvert í sínu lagi.

Nær nútímanum

Í framtíðinni viljum við, samstarfsráðherrar Norðurlanda, efla norrænt samstarf til þess að fækka svokölluðum landamæra- eða stjórnsýsluhindrunum milli Norðurlandanna þannig að þau verði sveigjanlegra og opnara atvinnusvæði þar sem nýsköpun blómstrar. Við viljum að Norðurlönd finni sameiginlegar lausnir þegar það er hagkvæmara – til dæmis varðandi sérhæfðar læknismeðferðir og sameiginleg rannsóknarverkefni. Við viljum að Norðurlönd markaðssetji sig á heimsvísu og noti hugtakið „Norden" sem vörumerki á alþjóðavettvangi. Eftir því sem fjarlægðin frá Norðurlöndum verður meiri, þeim mun hagkvæmara er að markaðssetja löndin sem heild í stað þess að hvert land fyrir sig reyni að koma sér á framfæri. Almenningur á fjarlægum slóðum þekkir Norðurlönd oft betur en einstök norræn ríki. Við viljum að Norðurlönd nýti sameiginlega styrkleika í alþjóðasamstarfi – til dæmis í alþjóðlegum loftslagsviðræðum og innan ESB þegar það á við.

Norðurlönd eru mikið í umræðunni úti í hinum stóra heimi. Rætt er um að samfélagsgerð Norðurlanda sé góð fyrirmynd sem önnur samfélög geti haft til hliðsjónar þegar tekist er á við viðfangsefni framtíðarinnar. Í skýrslunni „The Nordic model – challenged but capable of reform" segir að Norðurlandabúar verði að vera opnir fyrir umbótum ef norræna velferðarríkið á áfram að vera fyrirmynd fyrir aðra í framtíðinni.

Það sama á við ef við ætlum að ná markmiðum okkar um landamæralaus, nýskapandi, sýnileg og opin Norðurlönd. Þá þarf norrænt samstarf að vera kraftmikið og vera fært um að endurnýjast í takt við breytta tíma.

Vegna þessa höfum við, samstarfsráðherrar Norðurlandanna, ákveðið að færa norrænt samstarf nær nútímanum. Við ætlum að leggja áherslu á þau mál sem ríkisstjórnir og íbúar Norðurlanda telja mikilvæg. Við ætlum að tryggja að norrænt skattfé sem fer til norræns samstarfs sé nýtt á skynsamlegan hátt. Við ætlum að tryggja að árangur náist með skilvirku samstarfi án óþarfa skrifræðis og seinagangs.

Nú þegar velferðarsamfélög Norðurlandanna standa frammi fyrir alþjóðavæðingu, hækkandi meðalaldri íbúanna, loftslagsbreytingum, efnahagskreppu, átökum á nærsvæðum okkar og hryðjuverkaógn er ekki tímabært að draga úr samstarfi. Þvert á móti: við þurfum að efla samstarfið og forgangsraða betur. Það er þetta sem við, samstarfsráðherrar Norðurlandanna, ætlum að beita okkur fyrir.